Fundarsköp íslenska Flugstéttafélagsins
Birt með fyrirvara um breytingar.
1. gr.
Forseti eða í forföllum hans varaforseti setur alla fundi. Í byrjun hvers fundar tilnefnir hann einhvern fundarmann sem fundarstjóra, með samþykki fundarins, sem síðan stjórnar fundi. Forseti ber þó ábyrgð á fundarstjórn. Forseti leggur fram dagskrá fundarins sem fundarstjóri les upp. Fundarstjóri sér um að umræður fari reglulega fram og úrskurðar ef deilt er um skilning á lögum félagsins eða fundarsköpum. Óski hann þess að taka þátt í umræðum skal hann víkja úr sæti sínu og setja annan til að stjórna fundi á meðan.
2. gr.
Fundarbók skal félagið halda og skal ritari færa í hana það helsta sem fram fer á fundi (sbr. 16. og 17. gr. laga ÍFF). Fundargerð skal birta á lokuðu vefsvæði ÍFF innan viku frá því fundur var haldinn. Fundargerð síðasta fundar, undirrituð af forseta og ritara, skal borin upp í fundarbyrjun til samþykktar. Komi fram tillögur til breytinga eða viðauka sem ritari fellst á eða fundurinn staðfestir með atkvæðagreiðslu skal geta þeirra í næstu fundargerð á eftir. Óski fundarmaður sérstakrar bókunar skal taka það til greina.
3. gr.
Sá sem óskar eftir að taka til máls skal biðja fundarstjóra um leyfi. Veita skal orðið í þeirri röð sem beðið er um það. Ræðumaður skal standa á meðan hann flytur mál sitt. Skal hann halda sér við það mál sem til umræðu er og varast ósæmilegt orðbragð. Komi það fyrir skal fundarstjóri áminna hlutaðeigandi. Þyki fundarstjóra umræður óhóflega langar, getur hann með samþykki fundarins takmarkað ræðutíma. Fundarmenn geta krafist þess að umræðum sé hætt og skal fundarstjóri þá efna til atkvæðagreiðslu umræðulaust.
4. gr.
Allar tillögur skulu bornar fram skriflega. Tillaga skal undirrituð af flutningsmanni eða mönnum, ef fleiri eru. Heimilt er með leyfi fundarstjóra að skipta tillögu upp í tvo eða fleiri hluta, enda komi það ekki niður á skýrleika og sjálfstæði þeirra.
Heimilt er að bera fram dagskrártillögu, sé það gert, skal hún vera rökstudd. Þegar um breytingartillögu eða viðaukatillögu er að ræða skal fundarstjóri fyrst lesa aðaltillöguna upp og síðan eins og hún verður með framkominni breytingu. Breytingartillögu skal bera fyrst undir atkvæði. Breytingartillögu við breytingartillögu skal ekki taka til greina. Tillögur sem teknar eru aftur má annar fundarmaður bera upp að nýju. Fellda tillögu má ekki bera upp aftur á sama fundi.
5. gr.
Afl atkvæða með eða móti ræður úrslitum við atkvæðagreiðslu kosningar nema þar sem lög eða fundarsköp félagsins ákveða annað.
6. gr.
Kosning í nefndir eða aðrar trúnaðarstöður skulu fara fram skriflega eða rafrænt. Kjósa skal um framkomnar uppástungur ef ekki er öðruvísi kveðið á um í lögum félagsins. Þeir einir teljast í kjöri sem stungið hefur verið upp á. Atkvæðaseðill er ógildur ef fleiri nöfn eru á honum en eiga að vera. Sé aðeins einn í kjöri, eða jafnmargir og kjósa á, eru þeir kosnir án atkvæðagreiðslu.
7. gr.
Hljóti tveir eða fleiri jöfn atkvæði, þegar kosið er til trúnaðarstarfs, skal kjósa aftur milli þeirra. Fái þeir enn jöfn atkvæði ræður hlutkesti. Allar kosningar eru bindandi nema annað sé tekið fram í lögum félagsins.
8. gr.
Atkvæðagreiðsla skal fara fram með rafrænum hætti sé því viðkomið, en að öðrum kosti með handauppréttingu eða leynilega. Þyki fundarstjóra atkvæðagreiðsla óglögg getur hann endurtekið atkvæðagreiðsluna og sett tvo menn til að telja atkvæði. Atkvæðagreiðsla skal bókuð þannig að fram komi hversu margir greiddu atkvæði með tillögu, á móti tillögu, sátu hjá og hversu mörg atkvæði voru ógild.
9. gr.
Það skal vera regla að leiða ekki mikilsvarðandi mál til lykta á fyrsta fundi sem þau koma fyrir, hafi þeirra ekki verið getið í fundarboði, nema úrskurður málsins þoli ekki bið að skaðlausu.
10. gr.
Fundarsköpum þessum má breyta á hvaða lögmætum fundi sem er. Fundur sá sem samþykkir breytingu ákveður hvenær hún gengur í gildi. Þó geta breytingar ekki náð til þess fundar sem þær eru samþykktar á.