Beint í efni

Reglugerð

1. Nafn sjóðs, heimili og sjóðsfélagar

Sjóðurinn heitir Sjúkrasjóður íslenska Flugstéttarfélagsins (SÍFF). Heimili sjóðsins og varnarþing er í Reykjavík. Sjóðsfélagar eru þeir sem teljast fullgildir og atkvæðisbærir meðlimir Íslenska Flugstéttarfélagsins (ÍFF).

2. Markmið sjóðsins

Verkefni og markmið sjóðsins er að veita sjóðsfélögum fjárhagsaðstoð í veikinda- og slysatilvikum. Þar undir fellur kostnaður við endurhæfingu félagsmanna vegna slysa og sjúkdóma. Ennfremur að veita fjárhagsaðstoð vegna viðhalds starfsréttinda/skírteinis. 

Iðgjöld sem berast munu safnast inn á aðskilda reikninga sem munu tilheyra tveimur hópum. Flugmönnum annars vegar og öryggis- og þjónustuliðum hins vegar og munu greiðslur úr sjóðnum greiddar út af þeim reikningum eftir því hvorum hópnum umsækjandi tilheyrir.  Hvorum hóp fyrir sig er heimilt að aðlaga samþykktir betur að sínum þörfum án þess að það hafi áhrif á hinn hópinn. (1*)

3. Tekjur sjóðsins

Tekjur til sjóðsins er hlutfall af samingsbundnum iðgjöldum ÍFF, samkvæmt samningi ÍFF og SÍFF hverju sinni.

4. Sjórn og rekstur

Stjórn sjóðsins skal skipuð tveimur fullgildum og atkvæðisbærum meðlimum ÍFF, og tveimur varamönnum, til jafns úr hvorri stétt. Stjórn sjóðsins skipar með sér verkum. 

Kjörtímabil stjórnar skal vera þrjú ár, eða fram að næsta aðalfundi á þriðja starfsári. Kjöri hennar skal lýst á aðalfundi ÍFF með einföldum meirihluta atkvæða. Sjóðstjórn setur sér eigin starfsreglur og setur nánari reglur við úthlutun úr sjóðnum. Stjórn sjóðsins og starfsmenn hans skulu fara með allar umsóknir og afgreiðslu sem trúnaðarmál. 

Takist ekki að kjósa stjórn sjóðsins, skal Miðstjórn ÍFF skipa stjórn SÍFF á sínum fyrsta fundi eftir aðalfund. Sú skipum skal gilda fram að næsta aðalfundi, þar sem kostning fer fram á nýjan leik. 

5. Reikningar og endurskoðun

Sjóðurinn hefur sjálfstæðan fjárhag, að fullu aðskilinn frá ÍFF. Iðgjaldagreiðslur til sjóðsins skulu vera skráðar á nafn hvers sjóðsfélaga. 

Reikningar sjóðsins skulu lagðir fram endurskoðaðaðir og áritaðir af skoðunarmönnum og endurskoðanda á aðalfundi ÍFF ár hvert. 

Sjóðurinn greiðir beinan kostnað vegna rekstur sjóðsins, en er heimilt að deila kostnaði með ÍFF eftir atvikum og skal ákveðið frekar með samkomulagi milli stjórnar ÍFF og SÍFF.

6. Ávöxtun og varsla

Stjórn sjóðsins ber ábyrgð á vörslu eigna sjóðsins og skulu þær ávaxtaðar með eftirfarandi hætti:

Þess skal ávalt gætt að varsla og ráðstöfun fjármuna fari ekki í bága við markmið eða verkefni sjóðsins. 

Að minnsta kosti fimmta hvert ár skal stjórn sjóðsins fá tryggingafræðing eða löggiltan endurskoðanda til að meta framtíðarstöðu sjóðsins þ.m.t. að meta ávöxtun sjóðsins og möguleika þess að standa við skuldbindingar sínar. Geti sjóðurinn ekki staðið við skuldbindingar sínar er stjórn skylt að tilkynna það aðalfundi og leggja fram tillögur til úrbóta. Ef farsóttir geysa getur stjórn sjóðsins leyst sjóðinn frá greiðsluskyldum sínum um stundarsakir. (2*)

Meti sjóðsstjórn svo, að sjóðurinn ráði ekki við skuldbindingar sínar, er honum heimilt að hlutfallslækka greiðslur og styrki úr sjóðnum tímabundið, með það að markmiði að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart öllum félögum hverju sinni. 

7. Skyldur sjóðsfélaga, umsóknir um greiðslur og upplýsingar

Umsókn um styrk skal vera skrifleg og skilað í því formi sem stjórn sjóðsins ákveður hverju sinni. Umsókn skulu fylgja öll nauðsynleg vottorð, fylgiskjöl og staðfestingar. Stjórn sjóðsins er heimilt að kalla eftir frekari gögum eftir því sem við á og þurfa þykir hverju sinni. 

Umsækjandi skal, ef nauðsyn ber til að mati sjóðsstjórnar, heimila trúnaðarlækni sjóðsins að sannreyna réttmæti framlagðra læknisvottorða eða að undirgangast læknisskoðun ef þörf krefur að mati stjórnar. 

Berist ekki fullnægjandi gögn og upplýsingar frá umsækjanda skal sjóðsstjórn hafna umsókn að svo stöddu. 

Sjóðsfélagi sem gefið hefur rangar eða villandi upplýsingar eða leynt hefur upplýsingum um hagi sína, fyrirgerir rétti sínum. Heimilt er að endurkrefja sjóðsfélaga um allar greiðslur sem þannig eru fengnar. 

Stjórn skilar skriflegri ákvörðun vegna umsóknar um styrkveitingu. Stjórn er ekki skylt að rökstyðja ákvörðun sína. Ákvörðun stjórnar er endanleg og verður ekki áfrýjað. Ný stjórn hefur heimild til endurupptöku máls innan þriggja ára frá upphaflegri umsókn. 

8. Endurgreiðsla

Iðgjöld til sjúkrasjóðs endurgreiðast ekki við brotthvarf sjóðsfélaga. Sjóðstjórn er heimilt að greiða félagsmönnum úr sjóðnum gefi styrkur sjóðsins tilefni til. Greiðslur skulu vera í pro rata hlutfalli við greitt iðgjald (3*) hvers sjóðsfélaga. 

9. Um málsmeðferð og skyldur sjóðsins

Málsmeðferð skal lúta almennum og góðum stjórnsýsluhefðum eftir því sem við á. Stjórn sjóðsins er skylt að upplýsa sjóðsfélaga um rétt þeirra og aðstoða umsækjendur eftir því sem við verður komið hverju sinni. 

10. Gerðarbók

Stjórn sjóðsins skal halda gerðarbók yfir umsóknir, samþykktar umsóknir og greiðslur úr sjóðnum. 

11. Réttindi sjóðsfélaga

Þeir sjóðsfélagar sem greitt hefur verið fyrir iðgjald í a.m.k. 6 mánuði, eiga rétt á eftirfarandi styrkveitingu: (4*)

Sjúkradagpeningar eru veittir samkvæmt ávinnsluréttindum, þ.e. fjöldi greiddra mánaða getur aldrei verið meiri en fjöldi greiddra iðgjalda og að hámarki í 36 mánuði. (5*)

a. Aðstoð vegna tímabundinna veikinda eða slysa

Sjóðsfélagar sem vegna veikinda eða slysa eru frá störfum eiga rétt á greiðslu úr sjóðnum. Rétturinn öðlast gildi frá þeim tíma að greiðslur frá atvinnurekanda taka endi samkvæmt kjarasamningi eða öðrum atvikum, og fram að þeim tíma að viðkomandi tekur aftur til starfa. 

Greiðslur skulu nema sem gildir föstum launum viðkomandi eins og þau eru skilgreind í kjarasamningi við upphaf forfalla og skulu á bótatíma taka breytingum samkvæmt kjarasamingi. 

b. Aðstoð vegna endurhæfingar

Sjóðsfélagar sem vegna veikinda eða slysa eru frá störfum eiga rétt á greiðslu úr sjóðnum vegna endurhæfingar og nauðsynleg getur talist til að viðkomandi getur hafið starf á ný. Umfang aðstoðar og greiðslur skulu lúta mati sjóðsstjórnar. 

c. Aðstoð vegna viðhald heilbrigðisvottorðs

Sjóðsfélagar, sem af sérstökum ástæðum þurfa aðstoð vegna viðhalds heilbrigðisvottorðs, og ekki er greiddur af vinnuveitanda, skulu eiga rétt á greiðslum úr sjóðnum. Umfang aðstoðar og greiðslur skulu lúta mati sjóðsstórnar. 

d. Aðstoð vegna útfarar 

Stjórn sjóðsins hefur heimild til að veita styrk vegna útfarar-kostnaðar komi til andláts félagsmanns, maka hans eða barna til 24 ára aldurs. 

e. Aðrir styrkir 

Stjórn sjóðsins hefur heimild til að veita styrki vegna sérstakra átaks-verkefna tengdum heilbrigði félagsmanna er tengjast störfum þeirra með beinum hætti. SÍFF greiðir fyrir blettaskoðun félagsmanna hjá húðlæknastöðinni. Miðað er við skoðun einu sinni á almanaksári. (6*)

12. Takmarkanir

Styrkir og greiðslur úr sjóðnum takmarkast vegna réttinda sjóðsfélaga hjá þriðja aðila s.s. frá atvinnurekanda eða almennra eða sértækra trygginga. Sjóðsstjórn skal meta umfang annara greiðslna með það að marki að koma í veg fyrir tvígreiðslur bóta, eða heildargreiðslna sem eru hærri en þau lágmarksréttindi sem tryggð eru í þessum samþykktum. 

Komi til þess að sjóðsfélagi missi heilbrigðisvottorð að fullu og endanlega, falla styrkir sjóðins niður á þeim tímamótum sem sjóðsfélagi þiggur bætur vegna sérstakrar skýrteinistryggingar. Hámarks samfelldur bótatími hvers sjóðsfélaga skal vera þrjú ár. Að þeim tíma liðnum fellur bótaréttur niður að fullu. 

13.Breytingar

Breytingar á samþykktum þessum má aðeins gera á aðalfundi ÍFF, enda sé þess getið í fundarboði. Tveir þriðju greiddra atkvæða fullgildra meðlima dugir til að breytingartillaga teljist samþykkt. 

14. Slit

Ákvörðun um slit á sjóðnum verður einungis tekin á lögboðum félagsfundi ÍFF, þar sem slík tillaga kemur fram í fundarboði. Til þess að slíta félaginu þarf samþykki 2/3 hluta félagsmanna. Við slit á félaginu skal eignum þess ráðstafað til góðgerðarmála samkvæmt ákvörðun félagsfundar.
Samþykktir SÍFF, með breytingum, samþykktar á aðalfundi ÍFF 15.12.2021 (7*)

1* Samþykktir SÍFF, með breytingum, samþykktar á aðalfundi ÍFF 14.09.2024
2* Viðbót. Vegna ófyrirséðra afleiðinga sbr covid, sem farsóttir geta haft á fjölda manns og þal eignir sjóðsins.
3* Stafsetning leiðrétt.
4* Viðbót. Skylirði fyrir greiðslu/styrkveitingu sjúkrajóðs skilgreind. Algengt 4 – 6 mánuðir hjá sjúkrasjóðum.
5* Samþykktir SÍFF, með breytingum, samþykktar á aðalfundi ÍFF 14.09.2024 
6* Viðbót. Skilgreining á hversu oft sjúkrasjóður greiðir fyrir viðkomandi í blettaskoðun.
7* Samþykktir SÍFF, með breytingum, samþykktar á aðalfundi ÍFF 15.12.2021